Milljarður hefur sparast í lyfjamálum

Reuters


Beinn sparnaður vegna ýmissa aðgerða heilbrigðisyfirvalda í lyfjamálum nemur á tæpu ári rúmlega einum milljarði króna. Þetta kom fram á blaðamannafundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, í dag.

Guðlaugur sagði, að um mitt síðasta ár hafi litið út fyrir að lyfjakostnaður ársins yrði um 16,2% hærri en hann var árið áður. Margvíslegar aðgerðir af hálfu ráðuneytisins, lyfjagreiðslunefndar og lyfjafyrirtækja ásamt hagstæðri gengisþróun seinni hluta árs 2007, urðu til þess að hækkunin varð aðeins um fimm af hundraði og útgjöldin jukust um 350 milljónir króna og ekki tæpar 1100 milljónir eins og leit út fyrir.

Um 400 milljóna króna heildssölulækkun varð vegna útboðs lyfja, eða rúmlega 30% lækkun heilsöluverðs. Um 80 milljónir voru vegna lyfja sem verið var að bjóða út í fyrsta sinni. Í framhaldinu hefur verið ákveðið að öll sjúkrahús landsins sameinist um útboð á lyfjum í framtíðinni. Einnig verður leitað samstarfs öldrunarstofnana um þátttöku í lyfjaútboðum.

Stefnt er að því að bjóða lyfin út í samvinnu við Dani og Norðmenn. Þá hafa Færeyingar lýst yfir vilja sínum til að taka þátt í lyfjaútboðum með Íslendingum. Öll lyfjaútboð fara fram á EES-svæðinu og eru þau auglýst á vegum ESB.

Um síðastliðin áramót var gengið frá tilboðum í lyfjasúrefni, glaðloft og fleira fyrir sjúkrahús.  Niðurstöður þess útboðs voru sparnaður uppá um 33% frá því sem verið hefur, eða um 40 milljónir króna.

Heilbrigðisráðuneytið segir, að lyfjalisti Tryggingastofnunar og landlæknisembættisins hafi skilað verulegum árangri til lækkunar lyfjaverðs án þess að það hafi bitnað á þjónustunni. Það sama sé að segja um lyfjakostnað á þeim heilbrigðisstofnunum sem best hafi tekist við gerð lyfjalista. 

Ráðuneytið segir, að lyfjalisti TR og Landlæknis sem nú er unnið eftir sé þegar farinn að skila árangri hvað varðar þunglyndislyf og blóðfitulækkandi. Nú sé unnið að svipuðum ráðleggingum í næsta lyfjaflokki sem eru magasárslyf.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert