Mjög ánægður með stjórnina

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sagði á almennum stjórnmálafundi á Akureyri í gærkvöldi að hann væri mjög ánægður með samstarfið við Samfylkinguna í ríkisstjórn og kvaðst viss um að mörg mál, sem þar hefur verið unnið að, hefðu ekki náðst í gegn ef haldið hefði verið áfram með Framsóknarflokknum í stjórn eftir síðustu kosningar.

„Ég býð ekki í það ef við hefðum ætlað að taka þennan síðasta vetur með Framsóknarflokknum á einu atkvæði í meirihluta. Það hefði ekki þurft nema einn ólátabelg – og mér finnst nú líklegt að hann hefði þá verið hjá Framsókn! – til þess að spilla samstarfinu og gera okkur ómögulegt að taka erfiðar ákvarðanir. Það er fullt af málum sem við höfum gengið í gegnum sem við hefðum ekki getað klárað með þeim. Ég tala nú ekki um hvernig samstarfið við Vinstri græna hefði verið ef við hefðum farið með þeim, miðað við það hvernig þeir hafa látið í ýmsum málum.“

Nokkrir fundarmanna gagnrýndu að stefnt væri að því að taka upp matvælalöggjöf Evrópusambandsins nú á vorþinginu. Meðal annars skoraði bæjarstjórinn á Akureyri, Sigrún Björk Jakobsdóttir, á ráðherra og þingmenn að fresta málinu og ná um það betri sátt. Bæði Geir og Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sögðu hins vegar að ekki yrði hjá því komist að taka upp löggjöfina. Arnbjörg lofaði því að nefndin myndi skoða málið mjög gaumgæfilega með sjónarmið allra í huga.



 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert