Ofsaflóð rauf hringveginn

Flutningabíllinn á hliðinni í flóðinu.
Flutningabíllinn á hliðinni í flóðinu. mynd/Bragi Benediktsson

Hringvegurinn er rofinn á um 200 metra kafla og mikið skemmdur á um eins kílómetra kafla, eftir að flóð varð við Biskupsháls á Mývatnsöræfum rétt austan við Grímsstaði á fjöllum seint í gærkvöldi, þegar stöðuvatn eitt hljóp skyndilega fram.

Þar hafa verið miklir vatnavextir að undanförnu. Að sögn viðstaddra varð flaumurinn að gríðarstóru fljóti sem barst niður hálsinn samsíða þjóðvegi eitt. Gróf hann sig smám saman inn í vegöxlina og saxaði úr henni. Mildi þykir að engan sakaði, en stór vöruflutningabíll frá Flytjanda, fulllestaður af fiski, á að giska 40 tonn að heildarþyngd að sögn lögreglu, valt út í flóðið.

Ökumaður bílsins neyddist til að stöðva för sína þegar hann kom að hálfsundurgröfnum veginum austan megin flóðsins á tólfta tímanum. Bíllinn sökk þá í veginn sem orðinn var gegnsósa af vatni. Komst bíllinn þá hvorki lönd né strönd. Um fimmtán mínútum síðar gátu ökumaðurinn og lögregla sem þá var komin á vettvang lítið aðhafst þegar flaumurinn gróf undan hlið bílsins og hann valt út í. Var það mikið sjónarspil með neistaflugi og brothljóðum í vél bílsins, sem enn var í gangi og gengu úr bílnum olíuspýjur þegar hann féll niður í flauminn. Eftir þetta braut aftan á bílnum og vatnið gróf sér leið í gegnum veginn ofan hans.

Vegagerðin áætlaði að ef vatnavextirnir rénuðu nógu mikið til að hægt yrði að komast að skemmdinni á veginum gæti ef til vill verið orðið fært um veginn seinnipartinn í dag, en tekið var fram að það færi eftir því hversu hratt drægi úr flóðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert