Sjálfstæðismenn mynda hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akraness þar sem Karen Jónsdóttir fulltrúi F-lista hefur ákveðið að ganga í Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi. Mun Sjálfstæðisflokkurinn einn mynda meirihluta bæjarstjórnar á Akranesi út kjörtímabilið.
Þetta kemur fram á heimasíðu Akranesbæjar. Unnið verður áfram á grunni málefnasamnings sem var í gildi milli Sjálfstæðisflokks og F-listans. Karen mun áfram verða formaður bæjarráðs og Gunnar Sigurðsson áfram forseti bæjarstjórnar. Bæjarmálasamþykktinni verður breytt og kosið að nýju í allar nefndir bæjarins.
Þá hefur Gísli S. Einarsson bæjarstjóri einnig ákveðið að ganga í Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi. Ástæðan er fyrst og fremst ummæli Magnúsar Þór Hafsteinssonar, varabæjarfulltrúa F-lista og formanns félagsmálaráðs, um andstöðu sína við komu flóttamanna til Akraness.
„Hér hefur gengið á ýmsu undanfarið,” segir Gísli S. Einarsson bæjarstjóri Akraness um þessa ákvörðun sína og Karenar á vef Skessuhorns. „Ég hef ítrekað rætt við fjölmiðla um hugsanlega komu flóttamanna hingað til Akraness. Alls staðar hef ég haldið því fram að Akraneskaupstaður væri mjög vel í stakk búinn til þess að sinna þessu verkefni í samstarfi við það góða fólk sem kemur að því frá Rauða krossinum og félagsmálaráðuneytinu. Magnús hefur rifið þetta allt saman niður án þess að hafa til þess neitt umboð frá meirihluta bæjarstjórnar. Mín afstaða og ákvörðun nú byggist á því og ég hygg að það eigi við Karenu líka. Á þessum tíma hefur ekki borið neinn skugga á samtarf mitt við þau Gunnar og Karen.”
Magnús Þór Hafsteinsson mun því ekki lengur gegna formennsku í félagsmálaráði. „Þetta þýðir einfaldlega að allir þeir sem eru fulltrúar F-lista í nefndum og ráðum Akraness eru hér með úti. Það verður mjög fljótlega haldinn hér bæjarstjórnarfundur þar sem kynntar verða nýjar nefndir. Magnús verður þó ennþá varabæjarfulltrúi Karenar, því er ekki hægt að breyta.”
Gísli segir að fréttir af því að fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks í Velferðarráði Reykjavíkurborgar hefðu lagt fram tillögu um að bjóða flóttamennina velkomna til Reykjavíkur hefði verið dropinn sem fyllti mælinn. Í tilkynningu frá Björk Vilhjálmsdóttur sagði meðal annars: „Það er mat okkar að ekki sé leggjandi á flóttafólk að flytjast í bæjarfélag þar sem formaður félagsmálaráðs er á móti komu þeirra og vinnur opinberlega gegn dvöl þeirra þar.”
„Þetta gekk gjörsamlega fram af manni. Ef Sjálfstæðiflokkurinn hefði samþykkt orð og gjörðir Magnúsar hefði ég sagt af mér. Það er klárt mál,” segir Gísli og bætir því við að þótt hann gangi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn nú sé hann sami jafnaðarmaðurinn og hann hafi alltaf verið.