Héraðsdómur Austurlands hefur sýknað Ólaf Pál Sigurðsson, talsmann samtakanna Saving Iceland, af ákæru um eignarspjöll í héraðsdómi Austurlands. Ólafur Páll var ákærður fyrir að skemma lögreglubíl með því að berja á vélarhlíf bílsins við Snæfellsskála í júlí árið 2006.
Lögreglumenn sögðust hafa verið í eftirlitsferð við Snæfellsskála til að fylgjast með fólki, sem hafði farið inn á lokað vinnusvæði við Kárahnjúka daginn áður. Fólkið hafi verið mjög ósátt við komu lögreglumannanna og Ólafur Páll hefði haft sig haft sig mest í frammi og m.a. lamið nokkrum sinnum með hnefanum á vélarhlífina.
Ólafur Páll neitaði sök og sagði að lögreglumennirnir hefðu ekið á sig og hann kútvelst á vélarhlíf bílsins en tekist fyrir mikla mildi að ná jafnvægi með því að leggja hendurnar á vélarhlífina og þannig náð að vippa sér til hliðar.
Dómurinn segir m.a. að ekki hafi verið lagðar fram ljósmyndir af skemmdum á bílnum þótt einn lögreglumaður hafi borið að slíkar myndir hafi verið teknar og afhentar lögreglumanni þeim, sem annaðist rannsókn málsins. Þá hafi ekki farið fram mat hlutlauss aðila á tjóni því, sem talið sé að hafi orðið á bílnum og þá virðist raunverulegur viðgerðarkostnaður ekki liggja fyrir.
Þá segir að framburður lögreglumannanna fjögurra, sem komu fyrir dóminn komu og báru um að séð hefði á vélarhlíf bifreiðarinnar eftir högg Ólafs, þyki ekki fullnægjandi sönnun um að spjöll hafi verið unnin á bílnum. Því þykir ekki hafa verð leitt í ljós, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að Ólafur hafi valdið tjóni á bílnum.