Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði á fundi sjálfstæðismanna í dag í Valhöll um Evrópumálin að hann væri ekki hrifinn af hugmyndum um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem gera myndu kleift að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sagðist hann telja að ástæðulaust væri að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu nema búið væri að ákveða að sækja um aðild.
Hann fjallaði einnig um deilurnar um krónuna.
„Ég er þeirrar skoðunar að umræðurnar um gjaldmiðilinn hafi skapað of mikla spennu," sagði Björn. ,,Það hefði verið betra í öllu tilliti ef hægt hefði verið að finna mildari leiðir til að koma á móts við sjónarmið þeirra sem telja að þeir reki svo stór fyrirtæki á Íslandi að krónan henti þeim ekki. Ég hef enga lausn í því efni en tel að líta þurfi til þess sérstaklega og tel að þessi átök út af gjaldmiðlinum hafi verið notuð, eða jafnvel misnotuð, til að tala um að allt myndi breytast ef við færum inn í Evrópusambandið.
Vissulega gætum við þá tekið upp evruna eftir nokkur ár en það myndi ekki breyta þeirri stöðu sem við erum í núna. Og stundum hefur maður á tilfinningunni að þeir sem eru að reka fyrirtæki kenni því um að þeim hafi fatast flugið að við séum ekki í Evrópusambandinu. Auðvitað þurfa menn í Evrópusambandinu að reka fyrirtæki sín vel. Það er engin breyting á rekstrarumhverfi fyrirtækja hvort þau starfa á grundvelli EES-samningsins eða í Evrópusambandinu," sagði Björn Bjarnason.