Hrópað af þingpöllum

Hluti baráttuhópsins á þingpöllum í dag.
Hluti baráttuhópsins á þingpöllum í dag. mbl.is/Júlíus

Um 100 manns svöruðu kalli baráttuhóps atvinnubílstjóra um að safnast saman á Austurvelli í dag og mótmæla því að ekkert sé gert til þess að bæta kjör fólks í landinu, eins og segir í áskorun baráttuhópsins. Hluti hópsins fór síðan inn í Alþingishúsið á þingpalla og þar gerðu nokkrir úr hópnum hróp að þingmönnum meðan á fyrirspurnatíma stóð.  Þá þeyttu nokkrir bílstjórar flautur utan við þinghúsið. 

Sturla Jónsson, talsmaður baráttuhópsins, sagði við mbl.is, að þetta væri í fyrsta  skipti á ævinni sem hann kæmi á þingpalla og hann hefði orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Þarna væri fólk að tala um ástandið í öðrum löndum en sæi ekki út í garðinn hjá sér. „Þetta er grátlegt," sagði Sturla, sem kallaði til þingmanna, að þeir ættu að snúa sér að fólkinu hér heima áður en þeir færu eitthvað annað.

Þess má geta að í fyrirspurnatíma á Alþingi, sem stóð yfir þegar hópurinn var á þingpöllum, var m.a. rætt um eftirlaun ráðherra og æðstu embættismanna, Evrópumál og hvers vegna ekki hefði verið boðin fram aðstoð íslensku rústabjörgunarsveitarinnar vegna jarðskjálftans í Kína.

Sturla sagðist ekki vera ánægður með viðbrögð við ákalli, sem sent var út í gær um að fólk mætti á Austurvöll nú í morgun og mótmælti því að ekkert væri gert til að bæta kjör fólks í landinu. „Þjóðin virðist ekki ætla að vakna fyrr en búið er að henda henni út úr húsunum," sagði Sturla. „Þjóðin er svo meðvirk; þetta er eins og einn stór alkóhólismi," bætti hann við.

Þá sagði hann varna von, að þingmenn, sem hefðu mörghundruð þúsund krónur á mánuði og trygg eftirlaun næðu því sem væri að gerast í þjóðfélaginu.

Hann sagðist reikna með því, að kjarninn, sem hefur staðið fyrir aðgerðum undanfarnar vikur, muni halda þeim áfram eitthvað lengur. 

Sturla Jónsson, bílstjóri, ávarpar viðstadda á Austurvelli.
Sturla Jónsson, bílstjóri, ávarpar viðstadda á Austurvelli. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert