Skuldbindingar ríkissjóðs vegna eftirlauna ráðherra og alþingismanna meira en tvöfölduðust á árunum 2000-2006. Þetta er mun meiri hækkun en lífeyrir opinberra starfsmanna hækkaði um á sama tíma.
Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs vegna alþingismanna og ráðherra námu í árslok 2006 8.668 milljónum og miðað við hækkun síðustu ára má gera ráð fyrir að þessar skuldbindingar hafi um síðustu áramót verið farnar að nálgast 10 milljarða.
Frá 2000 til 2006 hækkuðu lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs vegna ráðherra um 127% og 105% vegna alþingismanna. Á sama tímabili hækkaði vísitala lífeyris opinberra starfsmanna sem Hagstofan mælir um 68% og launavísitalan hækkaði um 51%. Meginskýringarnar á þessum miklu hækkunum eru því hækkun launa alþingismanna og ráðherra og aukin lífeyrisréttindi sem fylgdu nýjum lögum um eftirlaun æðstu embættismanna þjóðarinnar árið 2003.