Nauðsynlegt að leiða lögreglustjóraembættið út úr fjárhagsvanda

Tollverðir á Suðurnesjum á fundi.
Tollverðir á Suðurnesjum á fundi.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að nauðsynlegt væri að leiða lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum út úr árlegum fjárhagsvanda en sá vandi veiki innviði embættisins meira en nokkuð annað. Þingmaður Samfylkingar telur að skoða þurfi að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í núverandi mynd.

Staða tollgæslu og lögreglumála á Suðurnesjum var rædd utan dagskrár á Alþingi í dag að beiðni Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

Björn sagði að í lok febrúar hefði orðið ljóst að lögreglustjórinn á Suðurnesjum taldi sig ekki geta rekið embætti sitt innan fjárheimilda á árinu og munaði þar 200 milljónum króna. Þetta hefði komið ráðuneytinu í opna skjöldu og það hefði staðið frammi fyrir sambærilegu viðfangsefni og árið 2007 þegar 200 milljóna króna halli blasti við.

Björn sagði, að nefnd sérfróðra manna hefði árið 2007 verið falið að fara í saumana á rekstri og umsýslu embættisins. Nefndin hefði m.a. talið að aðskilja bæri fjárhag einstakra verkþátta embættisins og fella þá fjárhagslega undir viðkomandi ráðuneyti.

Björn sagði, að lagt hefði verið fyrir lögreglustjórann að embættið verði rekið innan fjárheimilda og gjöld umfram fjárheimildir verði langt innan við 200 milljónir í árslok.

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að árangur embættisins á Suðurnesjum væri einstaklega góður. Afstaða Samfylkingarinnar væri sú að faglega og fjárhagslega væri best ein yfirstjórn væri yfir þeim málaflokkum, sem heyrðu undir embættið í Keflavík. Engin rök hefðu komið fram sem breyttu þessari afstöðu. Vandamálið væri, að fjárveitingar Alþingis til embættisins hefðu ekki fylgt þeim verkefnum, sem embættið hefði glímt við.

Lúðvík sagði, að nú þyrfti að skoða að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í þeirri mynd sem það er. Hugmyndin með stofnun embættisins hefði verð, að þar yrði lítil samræmingarmiðstöð löggæslumála í landinu.

Siv sagði í lok umræðunnar, að vitað hefði verið, að fjárveitingar til embættisins hefðu ekki verið nógu háar. Hún sagði, að Lúðvík hefði gefið dómsmálaráðherra og Sjálfstæðisflokknum á lúðurinn með stálkrepptum hnefa með yfirlýsingu sinni um embætti ríkislögreglustjóra.

Björn sagðist geta tekið undir það, að það hefði komið á óvart að embætti ríkislögreglustjóra hefði blandast í þessa umræðu. Sagði hann  það útúrsnúning hjá þingmönnum að reyna að blanda ríkislögreglustjóraembættinu í þetta mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert