Fulltrúar ríkisstjórnar og námsmanna í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa samþykkt nýjar úthlutunarreglur fyrir skólaárið 2008-2009 og taka þær gildi 1. júní nk. Áætlað er að 11.750 námsmenn fái 12.500 milljónir króna í námslán á næsta ári.
Í tilkynningu frá LÍN segir, að nýju reglurnar feli í sér meiri breytingar milli ára en viðskiptavinir sjóðsins hafi átt að venjast undanfarin ár. Lánakerfið verði sveigjanlegra og námsmönnum boðið upp á meira val en áður. Réttindi námsmanna verði þó áfram háð ýmsum takmörkunum.
Í stað þess að gera kröfu um tiltekna námsframvindu á hverju misseri eða hverri önn fyrir sig er nú litið á skólaárið heildstætt. Almennt gildir að allir sem uppfylla ákveðna lágmarkskröfu um framgang innan ársins öðlast rétt á námsláni í réttu hlutfalli við skil á námseiningum.
Lágmarkskrafan er jafnframt samræmd milli skóla, skólastiga og námslanda og samsvarar 20 svonefndum ECTS-einingum, sem er námseiningakerfi sem er verið að innleiða í öllum löndum EES-svæðisins. Skil á 60 ECTS-einingum á skólaári er skilgreint sem fullt nám.
Hámarkstillit miðast við 80 ECTS-einingar og gefur kost á framfærsluláni allt skólaárið eða í 12 mánuði. Réttur til skólagjalda- og ferðalána miðast jafnframt við skil á tilteknum fjölda eininga.
Breytingarnar eiga að auðvelda hverjum og einum að haga námsframvindu eins og honum hentar, hvort heldur til að fara sér hægt, t.d. vegna náms samhliða vinnu, eða til að fara sér hratt og stytta heildarnámstímann með sumarnámi.
Með breytingunum verður umsækjendum um námslán gefinn kostur á að fá lánsáætlun í samræmi við fyrirhugaða námsframvindu og einingaskil. Fram til þessa hefur fyrsta lánsáætlun alfarið tekið mið af fullu námi skv. skipulagi skóla. Áætlunin mun því eftirleiðis vera nákvæmari og gefa námsmönnum kost á að sjá áhrif þess á lánsfjárhæðir ef þeir hægja eða hraða náminu.
Kerfisbreytingin gerir sjóðnum kleift að lengja almennan umsóknarfrest, sem verður nú 15. janúar í stað 30. september. Útborgun vegna náms á haustmisseri mun eftir sem áður hefjast í janúar, en vegna náms eftir áramót mun útborgun nú geta hafist í apríl 2009. Eftir það og út skólaárið mun sjóðurinn borga út lán jafnóðum og upplýsingar berast frá skólum um lánshæfar einingar.
Þá hækkar grunnframfærslan um 7% eða úr 94.000 kr. í 100.600 kr., sem gerir 905.400 kr. fyrir 60 ECTS-einingar og hefðbundið níu mánaða nám.
Skerðingarhlutfall vegna tekna er áfram 10%, en tekjutillitinu verður nú dreift jafnt niður á einingar miðað við skil á 60 ECTS-einingum. Námsmaður sem skilar t.d. 30 ECTS-einingum á skólaárinu verður þannig í raun einungis fyrir 5% skerðingu á útreiknuðu láni vegna tekna.
Námsmenn erlendis öðlast sama rétt og námsmenn á Íslandi til lána vegna skólagjalda, allt að 1166 þúsund krónur árlega, til sérnáms eða grunnháskólanáms.
Samanlagt hámarkslán vegna skólagjalda hækkar og er nú 3,5 milljónir vegna náms á Íslandi í stað 3,35 milljóna áður.
Aðalmenn í stjórn LÍN eru Gunnar I. Birgisson, formaður, Kristín Edwald, varaformaður, Agla Hendriksdóttir, fulltr. menntamálaráðherra, Ásta Þórarinsdóttir, fulltr. fjármálaráðherra, Garðar Stefánsson, fulltr. SÍNE, Bergur Sigurjónsson, fulltr. SHÍ, Rakel Lind Hauksdóttir, fulltr. BÍSN og Guðni R. Jónasson fulltr. INSÍ.