Minnihlutinn í borgarráði Reykjavíkur, segir að svör, sem borgarstjóri lagði fram á fundi borgarráðs í dag um ráðningu framkvæmdastjóra miðborgar, hreki í engu að ráðning Jakobs Frímanns Magnússonar í starfið hafi verið pólitísk ráðning á sérkjörum.
Í bókun minnihlutans á borgarráðsfundi í dag segir að vandinn, sem borgarstjóri vísi til vegna ráðningarinnar, sé að ýmsu leyti heimatilbúinn. Þá sé ljóst að nýráðinn framkvæmdastjóri miðborgarinnar hafi kosið að taka sér hlutverk pólitísk talsmanns borgarstjóra fremur en faglegs embættismanns sem allir borgarfulltrúar eiga að geta treyst.
Þá undirstriki svör borgarstjóra, að viðkomandi starfsmaður sé ráðinn inn á launum sem séu mun hærri en sambærilegra verkefnisstjóra hjá Reykjavíkurborg, sem séu á bilinu 322-453 þúsund krónur sem og annarra sérfræðinga á skrifstofu borgarstjóra sem hafi meðallaun 458 þúsund krónur. Raunar séu kjör hins nýja starfsmanns umtalsvert hærri en skólastjóra, leikskólastjóra og framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva í hverfum borgarinnar, sem fari með umfangsmikinn rekstur og mannaforráð en það geri framkvæmdastjóri miðborgarinnar ekki.
Þá segir í bókuninni, að jafnframt blasi við að starfið sé ekki sambærilegt við starf miðborgarstjóra, sem lagt var niður árið 2005, enda hafi miðborgarstjóri borið fjárhagslega ábyrgð og farið með viðameiri verkefni, eins og samanburður starfslýsinga beri ljóslega með sér.
Fram kom í yfirlýsingu frá Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra, í dag að laun nýráðins framkvæmdastjóra miðborgarmála séu 710.000 þúsund krónur, þau sömu og fyrrum miðborgarstjóri, Kristín Einarsdóttir, hafði í tíð R-listans.