Frjálslyndir á Akranesi lýsa stuðningi við Magnús

Bæjarmálafélag Frjálslyndra og óháðra hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er fullum stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson varabæjarfulltrúa. Þá er skorað á Karenu Jónsdóttur að hún segi þegar af sér sem bæjarfulltrúi.

„Við erum sammála greinargerð hans vegna beiðni um móttöku flóttafólks á Akranesi sem lögð var fram á fundi meirihluta bæjarfulltrúa og meirihluta fulltrúa í félagsmálaráði Akraness 9. maí síðastliðinn.

Við mótmælum því valdaráni sem á sér stað á Akranesi þegar Karen Jónsdóttir bæjarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra gengur nú til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á miðju kjörtímabili. Við sem unnum ötullega að framboði listans teljum að hún hafi með þessu brugðist trausti bæði kjósenda, og okkar sem öfluðum henni brautargengis," segir m.a. í yfirlýsingunni.

Fundur verður í bæjarstjórn Akraness í dag þar sem m.a. verður kosið á ný í nefndir og ráð bæjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert