Ísland velji ekki hernaðarverkefni

Ekki er æskilegt að Ísland velji sér verkefni á hernaðarlegum forsendum, hvort sem er innan eða utan Atlantshafsbandalagsins (NATO). Þetta kom fram í máli Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í gær en hann gagnrýndi að hundruð milljónum króna sé varið í svokallað loftrýmiseftirlit.

Jón vakti máls á þessu í framhaldi af fyrirspurn sinni til utanríkisráðherra um hvort Ísland hefði boðið fram aðstoð sína eftir náttúruhamfarirnar í Kína. Sagði hann íslenska rústabjörgunarsveit vera viðurkennda af alþjóðasamfélaginu og vildi að hún væri send á vettvang.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði geta verið deildar meiningar um hvaða verkefni Ísland ætti að velja sér. Forsætisráðherra hefði farið á fund NATO og niðurstaðan hjá bandalaginu hefði verið að halda ætti loftferðaeftirlitinu áfram. „Ef þingmaðurinn er mjög ósáttur við þá niðurstöðu hygg ég að hann verði að ræða það í sínum ranni en ekki við mig.“

Ingibjörg sagði sjálfsagt að skoða með hvaða hætti Ísland gæti lagt sitt af mörkum óskuðu kínversk stjórnvöld eftir því en slík ósk hefði ekki komið fram. „Þeir telja sig væntanlega vera ágætlega í stakk búnir sjálfir til þess,“ sagði Ingibjörg og bætti við að viðkvæmt gæti verið hjá ríkjum að leita eigi eftir erlendri aðstoð.

Jón tók ekki undir þetta og sagði fyrirkomulagið á alþjóðavettvangi vera þannig að þjóðir byðu fram aðstoð sína og þjóðin sem fyrir áfalli hefði orðið tæki síðan ákvörðun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert