Nálarnar fengu að liggja

Tilkynning um að notaðar sprautunálar væru við garðbekk á Miklatúni hlaut fremur dræmar undirtektir hjá Reykjavíkurborg í gær, eins og fram kemur í bloggi Friðriks Friðrikssonar leikara.

Í blogginu segir Friðrik að hann hafi verið að rölta með barnavagn um Miklatún og fundist tilvalið að tylla sér á garðbekk til að hvíla lúin bein. Þegar hann nálgaðist bekkinn sá hann pakkningar utan af sprautunálum og hann fann síðan notaða plastsprautu og tvær sprautunálar. Friðrik hringdi í þjónustunúmer Reykjavíkurborgar og var gefið samband við hverfisstöð þar sem ung stúlka svaraði og Friðrik tilkynnti erindið.

„Hún spurði þá hvar nákvæmlega þetta væri og ég sagði henni við Rauðarárstíg. Hún svaraði mér þá því að þetta væri ekki hennar hverfi og ég ætti að hafa samband við aðra stöð. Ég brást hvass við og sagði það ekki vera í mínum verkahring að hendast á milli aðila sem vörpuðu ábyrgðinni á einhverja aðra og bað hana að taka málið að sér. Á bakaleið rúmum klukkutíma síðar gekk ég fram á unga konu með lítinn dreng sem spásseraði í kringum bekkinn. Ég sá að sprautunálarnar voru ennþá til staðar og varaði konuna við. Mér blöskraði skeytingarleysi borgarstarfsmannsins sem greinilega hafði látið það vera að bregðast við nálunum og hringdi því aftur í þjónustuverið. Þjónustufulltrúinn sagðist ætla að ganga í málið. Ég vona allra vegna að nálarnar séu horfnar,“ segir í blogginu, www.frikki.blog.is.

Nálarnar voru farnar í gærkvöldi þegar ljósmyndari blaðsins litaðist þar um.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert