Stórlaxar Glitnis hætta við laxveiðina

 Samkvæmt upplýsingum frá Glitni hefur bankinn fækkað verulega ferðum fyrir viðskiptavini sína í laxveiði í sumar, en það mun vera einn liður í sparnaðaraðgerðum bankans vegna samdráttar á fjármálamarkaði. Ekki fæst uppgefið um hversu margar ferðir er að ræða, en talið er að þær hlaupi á tugum.

„Við höfum auðvitað verið að vinna að því að ná niður kostnaði á öllum sviðum frá því fyrir áramót, og þó að svona ferðir tengist iðulega ákveðnum viðskiptalegum hagsmunum bankans, tókum við þá ákvörðun fyrir áramót að draga verulega úr slíkum boðsferðum,“ segir Már Másson, upplýsingafulltrúi Glitnis.

Samkvæmt heimildum 24 stunda kostar einn dagur í laxveiði, þ.e.a.s. einn veiðimaður og ein stöng í tólf klukkutíma, frá þrjátíu þúsund krónum upp í 180 þúsund krónur og iðulega eru ferðirnar pantaðar með nokkurra mánaða fyrirvara, en jafnan er ekki hægt að hætta við ferðir hafi staðfestingargjald verið greitt.

Að sögn Árna Baldurssonar, framkvæmdastjóra Lax-ár, sem er eitt stærsta stangaveiðifélag landsins með einar fimmtán laxveiðiár á sínum snærum, hefur dregið verulega úr pöntunum í laxveiði undanfarna mánuði.

Söluhrun í uppsiglingu

„Það hefur verið gríðarlega mikil uppsveifla í veiðinni síðastliðin fimm ár, enda er veiðin munaður sem fólk leyfir sér þegar það á peninga,“ segir Árni.

„Árið í ár kemur til með að vera þokkalegt, vegna þess að það var búið að ganga frá svo mörgum pöntunum, en ég er hræddur um að við munum finna verulega fyrir samdrættinum á næsta ári og við gætum átt von á hruni í sölu á veiðileyfum, nema verðið lækki umtalsvert.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka