Rútufyrirtæki fær bætur

Hæstiréttur staðfesti nýlega dóm Héraðsdóms Reykjavíkur að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart Hópbílaleigunni vegna missis hagnaðar, sem fyrirtækið hefði notið, hefði Vegagerðin ekki ákveðið að hafna tilboðum Hópbílaleigunnar í sérleyfisakstur og skólaakstur bæði á Suðurlandi og Suðurnesjum árið 2005.

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Hópbílaleigunnar, segir dóminn sterka áminningu til verkkaupa sem bjóða út verk að vísa ekki bjóðendum og verktökum frá á hæpnum forsendum. „Það getur komið hressilega niður á þeim eins og í þessu máli.“

Að sögn Jóhannesar Karls er nú verið að reikna út þessar kröfur og þær verða kynntar ríkinu á næstu vikum.

Í dómsorðum segir að á sínum tíma hafi ekkert komið fram um að Hópbílaleigan hafi ekki uppfyllt þau skilyrði um fjárhagslegt og tæknilegt hæfi sem fólust í útboðsgögnum um aksturinn á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Hópbílaleigan hafi verið með hagstæðasta tilboðið í aksturinn og því hafi Vegagerðinni ekki verið heimilt að hafna tilboði fyrirtækisins á þeim forsendum að það hefði ekki fjárhagslega og tæknilega burði til að standa við tilboð sitt. Ákvörðun Vegagerðarinnar hafi því brotið gegn ákvæðum laga um útboð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert