Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður segir nýlega reglugerð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um skilyrði gjafsóknar þrengja aðgengi einstaklinga að dómstólum enn frekar en gert var með lagabreytingu árið 2005. „Tekjumörkin í reglugerðinni eru bara út í hött. Höfundur þessarar reglugerðar, hver sem hann er, er greinilega algjörlega á móti gjafsóknarfyrirbrigðinu yfirhöfuð,“ segir Ragnar.
130 þúsund króna tekjumörk
Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að aðeins einstaklingar með tekjur upp á 130 þúsund krónur og minna eigi möguleika á gjafsókn. „Þetta er til þess að draga úr réttarvernd borgaranna gagnvart ríkinu,“ segir Ragnar.
Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna og lögmaður, tekur undir með Ragnari. „Flestar málsóknir eru ofviða mönnum sem hafa undir 300 þúsund krónur í tekjur og stærri málsóknir kalla á meiri tekjur,“ segir hann.
Til að draga úr útgjöldum
Atli spurði dómsmálaráðherra út í markmið og tilgang tekjumarkanna á Alþingi á fimmtudag. Því svaraði dómsmálaráðherra meðal annars: „Það hefur lengi verið gagnrýnt að það séu of há útgjöld úr ríkissjóði til þessara þátta og þetta er viðleitni af hálfu ráðuneytisins til að taka utan um þann málaflokk þannig að það samrýmist þeim heimildum sem samþykktar eru hér á þingi um fjárútlát.“
Atli segir að ekki eigi að skerða mannréttindi vegna fjárhagssjónarmiða. „Aðgengi einstaklinga að dómstólum telst til mannréttinda. Þau hafa á síðustu árum verið skert,“ segir hann.
Í hnotskurn
Gjafsókn nýtist einkum í skaðabótamálum þar sem deilt er um skaðbótaskyldu. Sumir einstaklingar leggja ekki út í skaðbótamál ef vafi er um sök. Í forræðisdeilumálum sem fara fyrir dómstóla hefur gjafsókn verið mikið notuð. Gjafsókn hefur einnig verið mikið notuð í vinnulaunamálum.