Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á fundi í Valhöll í dag, að ýmsar ráðstafanir væru í vinnslu og myndu brátt líta dagsins ljós. Miðuðu þær að því að styrkja viðbúnað efnahagslífsins og draga úr líkum á að óprúttnir aðilar úti í heimi sjái sér ávinning í að setja klærnar í íslenskt efnahagslíf.
Geir sagði, að þeir gjaldeyrisskiptasamningar, sem kynntir voru í gær, hefðu verið mikilvægir en hann teldi að yfirlýsing, sem hann gaf í tengslum hafi ekki síður haft áhrif á fjármálamarkaði. Þar var ítrekuð sú stefna ríkisstjórnarinnar, að stuðla að auknum hagvexti og skipulagsbreytingum á íslenska hagkerfinu með það fyrir augum að treysta efnahagslegan stöðugleika og bæta virkni peningamálastefnunnar með því að undirbúa og birta trúverðuga áætlun um umbætur og breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs.
Geir sagði, að skiptasamningurinn væri ekki lán heldur aðgangur að láni ef í harðbakkann slær: „Þetta er svona trygging sem Seðlabankinn fær fyrir hönd ríkisins til þess að geta brugðist við ef hér verður hörgull á fé til að takast á við vandann,“ sagði Geir. Hann taldi Seðlabankann hafa staðið sig afar vel í þessu máli.
Forsætisráðherra sagði að stjórnin hefði um hríð verið sökuð um að gera ekki neitt til að leysa efnahagsvandann. „Það er vegna þess að það eimir ennþá dálítið eftir af gamla hugsunarhættinum hjá þeim sem nú sitja í stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin tók við stjórnartaumunum 24. maí. En 31. maí sagði formaður Framsóknarflokksins núverandi í eldhúsdagsumræðum: Ríkisstjórnin flýtur sofandi að feigðarósi í efnahagsmálum!“ Geir sagði aðstæður í efnahagslífinu gerbreyttar. En þeir sem töluðu svona dreymdi um gamaldags ráðstafanir.
Hann rifjaði upp ástandið 1989 þegar „lagðir voru fram reglulega svonefndir efnahagspakkar sem byggðust á millifærslu og niðurgreiðslum. Í eitt skiptið var verið að lækka mjólkurverð um fjórar krónur lítrann og blýlaust bensín um tvær krónur lítrann. En snilldarbragðið var að lækka sérpakkað og brytjað lambakjöt til almennings á sérstöku tilboðsverði og ráðherrarnir stilltu sér allir upp á mynd með sérbrytjuðu lambakjöti. Efnahagsráðstafanir af þessu tagi eru auðvitað bara liðin tíð.“
Geir sagði slæmt ef of harkalega yrði gengið í að stöðva þensluna. „Við viljum ekki að það gerist að bankarnir bremsi allar lántökur samtími, stýrivextir séu 15,5% og að það verði svo snögg hemlun í hagkerfinu að fyrirtæki fari í gjaldþrot í stórum stíl og það verði fjöldatvinnuleysi. Við þurfum að gæta þess að spár um slíkt rætist ekki.“