Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi ályktun frá BHM:
„Aðalfundur BHM lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar pattstöðu sem samningaviðræður við ríkið eru komnar í. Það er óásættanlegt að samninganefndir aðildarfélaga bandalagsins mæti á fund eftir fund með samninganefnd ríkisins án þess að nokkrar eiginlegar viðræður eigi sér stað. Þessi kyrrstaða í samningamálunum er alfarið á ábyrgð fjármálaráðherra. Aðildarfélögum BHM er enn boðið upp á samning með forsenduákvæði sem þegar er brostið og því er það skýlaus krafa aðalfundar að fjármálaráðherra veiti samninganefnd sinni umboð til að ræða um samningsmarkmið sem sátt gæti náðst um.“