Kennara við Borgaskóla hefur verið vikið frá störfum vegna óviðeigandi hegðunar gagnvart stúlkum í 9. og 10. bekk skólans. Brottvikningin tók gildi í byrjun mars, samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu.
Í bréfi sem Inga Þ. Halldórsdóttir, skólastjóri Borgaskóla, sendi i foreldrum barna við skólann segir að málið hafi fyrst komið á borð umsjónakennara 11. janúar síðastliðinn. Þá hafi verið rætt við kennarann og hann beðinn að breyta hegðun sinni.
„Tíminn sem líður frá því þegar fyrstu stúlkurnar sögðu umsjónarkennara sínum frá líðan sinni til þess tíma er annað mál kemur upp er of langur," segir í bréfi skólastjórans. Þann tíma hefði kennarinn fengið til að breyta hegðun sinni en réttum mánuði síðar hafi móðir stúlku í 10. bekk komið með dóttur sinni til fundar við umsjónarkennara vegna atviks í lok kennslustundar vikunni áður.
Þá segir að í kjölfar málsins hafi sviðsstjóri Menntasviðs ákveðið að ferill verði mótaður hjá sviðinu ef mál af þessu tagi koma upp í framtíðinni. Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri segir þá vinnu í bígerð og verið sé að mynda starfshóp sem í munu sitja fulltrúar Menntasviðs, barnaverndar Reykjavíkur, þjónustumiðstöðvanna í Reykjavík og fulltrúi skólastjóra.