Krafan ekki um aðild en fremur breytingar

„Ég lít á þessa umræðu þannig, að í henni felist ekki krafa um inngöngu í Evrópusambandið, en fremur sé hún tilkomin vegna efnahagsástandsins og menn vonist eftir einhverjum breytingum á þeim hlutum,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. „Umræðan er ekki sprottin af ósk eða þrá manna um að taka upp sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB, eða félagsmálapakkann eða landbúnaðarstefnuna. Það er þessi þrýstingur vegna stöðu gjaldmiðilsins.“

Sigurður Kári segir, líkt og fleiri samþingmenn hans í Sjálfstæðisflokknum hafa gert á undanförnum dögum, að umræða um þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili sé ótímabær. „Ég er þeirrar skoðunar að stjórnmálaflokkarnir þurfi fyrst að taka efnislega afstöðu til álitaefnisins „á Ísland að ganga í Evrópusambandið eða ekki“ áður en farið er í breytingar á stjórnarskrá út af hugsanlegum möguleikum á inngöngu.“ Hann segir stefnu flokks síns skýra og henni verði ekki breytt nema á landsfundi. „Og ég á eftir að sjá að landsfundur Sjálfstæðisflokksins breyti þeirri stefnu. Ef ég þekki flokkinn minn rétt og þá sem sækja landsfund, þá þykir mér reyndar afar ólíklegt að það gerist í náinni framtíð.“

Sigurður Kári vísar einnig í stefnuskrár stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar og segir að af þeim megi ráða að þingmenn séu umboðslausir þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum vegna hugsanlegrar kosningar á næsta kjörtímabili.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert