Elding Hvalaskoðun í Reykjavík segir, að hrefnuveiðikvóti í atvinnuskyni, sem gefinn var út í dag, sé alvarleg aðför að hvalaskoðun við Faxaflóa. Krefst fyrirtækið þess að stjórnvöld endurskoði ákvörðunina.
Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir, að Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök hvalaskoðunarfyrirtækja hafi undanfarið fundað með sjávarútvegsráðherra, utanríkisráðherra og ráðherra ferðamála, sem hafi lýst áhuga sínum á að gæta hagsmuna hvalaskoðunarfyrirtækja og ferðaþjónustunnar. Þau orð séu marklítil nú.
„Hrefnan er helsta söluvara í hvalaskoðunarferðum frá Reykjavík ásamt höfrungum, hnísum og hnúfubökum sem einnig sjást í sumum ferðanna. Talsmaður hrefnuveiðimanna fullyrðir að 80 til 90% hrefnanna verði veiddar á Faxaflóa sem mundi stofna okkar fyrirtæki í stórhættu. Á síðasta ári tókum við á móti rúmlega 50.000 ferðamönnum og erum þar með í hópi stærstu ferðajónustuaðila landsins. Þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra er mikið reiðarslag fyrir okkar starfsemi," segir í tilkynningunni.
Þá segir, að fullyrðing talsmanns hrefnuveiðimanna um að aldrei hafi verið líflegra en nú í Faxaflóa sé dæmi um rangfærslur og áróður hrefnuveiðimanna þar sem sannleikurinn sé sá, að lífið í Flóanum sé með minnsta móti og áberandi lítið af hrefnu. Það sé líka í samræmi við niðurstöður úr hvalatalningu Hafrannsóknastofnuna síðastliðið sumar sem af einhverjum ástæðum hafi ekki verið haldið hátt á lofti.
„Fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins hefur nú beðið stjórnanda Eldingar Hvalaskoðunar í Reykjavík um upplýsingar um áætlaðar skoðunarferðir í sumar til að geta veitt í „góðri samvinnu við fyrirtækið”. Það þykir okkur ógnvekjandi og bendir óneitanlega til að ætlunin sé að sæta lagi og veiða á milli hvalaskoðunarferða," segir í tilkynningunni.