Bitruvirkjun út af borðinu

Svæðið þar sem til stóð að reisa Bitruvirkjun.
Svæðið þar sem til stóð að reisa Bitruvirkjun.

Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Hjörleifur Kvaran, segir að sér sýnist að Bitruvirkjun sé út af borðinu, að minnsta kosti í bili eftir að Skipulagsstofnun hefur birt álit sitt um að fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdirnar séu óviðunandi. Hjörleifur segir að álitið hafi komið verulega á óvart.

„Við áttum von á því að niðurstaðan yrði önnur því við höfum reynt að kynna nýja kynslóð af jarðgufuvirkjunum og reyndum að taka eins mikið tillit til sjónarmiða verndunaraðila eins og kostur er," segir Hjörleifur í samtali við mbl.is.

Hann segir að Orkuveitan hafi minnkað framkvæmdasvæðið um tvo þriðju í ferlinu. „Við höfum hannað þetta þannig að allar leiðslur verði annað hvort niðurgrafnar eða faldar á bak við jarðvegsmanir og reynt að gera þetta mannvirki eins torsýnilegt og kostur er. Þannig að við töldum að við værum að kynna sáttatillögu þar sem hægt  væri að sýna fram á að jarðgufuvirkjanir á lítt röskuðu svæði gætu fallið að landslagi en niðurstaðan er önnur hjá Skipulagsstofnun."

Hjörleifur segir að þeir umsagnaraðilar, sem fjalla um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir lögbundið, hafi verið tiltölulega jákvæðir í garð framkvæmda við Bitruvirkjun. Til að mynda lagðist Umhverfisstofnun ekki gegn virkjuninni.

Segist forstjóri OR telja að með þessu áliti Skipulagsstofnunar verði víða erfitt að byggja jarðgufuvirkjanir þrátt fyrir að ýmsir hafi talið að framtíðin væri frekar á sviði jarðgufuvirkjana heldur en vatnsaflsvirkjana.

„Það er stjórnarfundur hjá Orkuveitunni í fyrramálið og þar verður farið yfir þetta og málin rædd. Það er stjórnarinnar að taka ákvörðun en mér sýnist að það yrði mjög erfitt að halda þessu áfram. Það eru til lögfræðilegar leiðir en ég á ekki von á þær verði farnar enda yrði það mjög torsótt," segir Hjörleifur.

Hvað varðar Hverahlíðarvirkjun segir Hjörleifur, að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þeim skilyrðum, sem Skipulagsstofnun setur fram í áliti sínu.. „Það er í raun verið að segja okkur að gera það sem við ætluðum okkur að gera hvort sem er," segir Hjörleifur. „Ég sé ekki betur en að Hverahlíðarvirkjun  geti gengið enda andstaðan við hana minni en við Bitruvirkjun," bætir Hjörleifur við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka