Bitruvirkjun út af borðinu

Svæðið þar sem til stóð að reisa Bitruvirkjun.
Svæðið þar sem til stóð að reisa Bitruvirkjun.

For­stjóri Orku­veitu Reykja­vík­ur, Hjör­leif­ur Kvar­an, seg­ir að sér sýn­ist að Bitru­virkj­un sé út af borðinu, að minnsta kosti í bili eft­ir að Skipu­lags­stofn­un hef­ur birt álit sitt um að fyr­ir­hugaðar virkj­un­ar­fram­kvæmd­irn­ar séu óviðun­andi. Hjör­leif­ur seg­ir að álitið hafi komið veru­lega á óvart.

„Við átt­um von á því að niðurstaðan yrði önn­ur því við höf­um reynt að kynna nýja kyn­slóð af jarðgufu­virkj­un­um og reynd­um að taka eins mikið til­lit til sjón­ar­miða vernd­un­araðila eins og kost­ur er," seg­ir Hjör­leif­ur í sam­tali við mbl.is.

Hann seg­ir að Orku­veit­an hafi minnkað fram­kvæmda­svæðið um tvo þriðju í ferl­inu. „Við höf­um hannað þetta þannig að all­ar leiðslur verði annað hvort niðurgrafn­ar eða fald­ar á bak við jarðvegs­man­ir og reynt að gera þetta mann­virki eins tor­sýni­legt og kost­ur er. Þannig að við töld­um að við vær­um að kynna sátta­til­lögu þar sem hægt  væri að sýna fram á að jarðgufu­virkj­an­ir á lítt röskuðu svæði gætu fallið að lands­lagi en niðurstaðan er önn­ur hjá Skipu­lags­stofn­un."

Hjör­leif­ur seg­ir að þeir um­sagnaraðilar, sem fjalla um fyr­ir­hugaðar virkj­ana­fram­kvæmd­ir lög­bundið, hafi verið til­tölu­lega já­kvæðir í garð fram­kvæmda við Bitru­virkj­un. Til að mynda lagðist Um­hverf­is­stofn­un ekki gegn virkj­un­inni.

Seg­ist for­stjóri OR telja að með þessu áliti Skipu­lags­stofn­un­ar verði víða erfitt að byggja jarðgufu­virkj­an­ir þrátt fyr­ir að ýms­ir hafi talið að framtíðin væri frek­ar á sviði jarðgufu­virkj­ana held­ur en vatns­afls­virkj­ana.

„Það er stjórn­ar­fund­ur hjá Orku­veit­unni í fyrra­málið og þar verður farið yfir þetta og mál­in rædd. Það er stjórn­ar­inn­ar að taka ákvörðun en mér sýn­ist að það yrði mjög erfitt að halda þessu áfram. Það eru til lög­fræðileg­ar leiðir en ég á ekki von á þær verði farn­ar enda yrði það mjög tor­sótt," seg­ir Hjör­leif­ur.

Hvað varðar Hvera­hlíðar­virkj­un seg­ir Hjör­leif­ur, að ekki þurfi að hafa áhyggj­ur af þeim skil­yrðum, sem Skipu­lags­stofn­un set­ur fram í áliti sínu.. „Það er í raun verið að segja okk­ur að gera það sem við ætluðum okk­ur að gera hvort sem er," seg­ir Hjör­leif­ur. „Ég sé ekki bet­ur en að Hvera­hlíðar­virkj­un  geti gengið enda andstaðan við hana minni en við Bitru­virkj­un," bæt­ir Hjör­leif­ur við.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert