Ekki áróður gegn innflytjendum heldur gjörningur

Veggspjaldið sem um ræðir
Veggspjaldið sem um ræðir mbl.is/G. Rúnar

Veggspjöld sem hengd voru upp víðsvegar um miðborg Reykjavíkur á laugardag eru ekki áróður gegn innflytjendum heldur hluti af gjörningi svissneska listamannsins Christoph Büchel, sem sýnir í Skaftfelli á Seyðisfirði í tengslum við listahátíð.

Þórunn Hjartardóttir, framkvæmdastjóri menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells, segir gjörninginn hluta af innsetningu Büchel en hann sýni meðal annars svarta sauði fyrir austan. Segir Þórunn að með veggspjöldunum vilji listamaðurinn vekja athygli á fáránleika rasisma yfir höfuð.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag birtist skýr áróður gegn innflytjendum á veggspjaldinu. Sýndi veggspjaldið teiknaða mynd af þremur hvítum kindum sem stjaka svartri kind út af sínu svæði.

Veggspjöldin voru merkt svissneska flokknum SVP, Schweizerische Volkspartei, sem er hægri-þjóðernishyggjuflokkur sem notið hefur sívaxandi fylgis síðustu 17 ár.

Voru veggspjöldin bæði á þýsku og íslensku, með slagorðunum „Tryggjum öryggið“ eða „Sicherheit schaffen“ og „Okkar friðhelgi, mínir heimahagar“.

SVP notaði sömu myndskreytingu á veggspjöldum sínum í herferð í Sviss í ágúst 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert