Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að 33 ára gamall Pólverji, sem grunaður er um aðild að morði og fleiri glæpi í heimalandi sínu, verði framseldur til Póllands.
Í framsalsbeiðninni kemur fram, að Pólverjinn sé grunaður um þátttöku í skipulagðri starfsemi, sem hafði það að markmiði að fremja refsiverða verknaði, s.s. ólöglega dreifingu fíkniefna, líksamárásir, manndráp og fleira. Þá sé maðurinn jafnframt grunaður um frelsissviptingu og manndráp.
Fram kemur að Pólverjinn telji að rýr gögn hafi fylgt beiðni um framsal hans og ýmislegt í staðhæfingum pólskra dómsmálayfirvalda um meint brot hans fáist ekki staðist.
Héraðsdómur taldi hins vegar að öll gögn og upplýsingar, sem þyrftu samkvæmt lögum að fylgja framsalsbeiðni væru fyrir hendi og meint brot mannsins, sem gætu varðað ævilöngu fangelsi að íslenskum lögum, væru ófyrnd. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu.