Hrefnuveiðimenn segjast reikna með að halda til veiða í fyrramálið, verði veður hagstætt en reglugerð verður gefin út síðar í dag þar sem heimiluð verður veiði á 40 dýrum á þessu ári.
Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, segir að um sé að ræða framhald af þeirri ákvörðun, sem tekin var árið 2006 þegar ákveðið var að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Ákvörðun um fjölda veiðidýra sé tekin með tilliti til markaðarins og um sé að ræða svipaðan fjölda og verið hafi undanfarin ár.
Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Félags hrefnuveiðimanna, segir, að hrefnubáturinn Njörður KÓ muni hefja veiðarnar, væntanlega á morgun, en gert sé ráð fyrir að bátarnir Dröfn RE og Halldór Sigurðsson ÍS haldi til veiða þegar líður á sumarið.
Samið hefur verið við Kjötvinnsluna Esju um að sjá um vinnslu, pökkun og markaðssetningu á kjötinu og segir Gunnar, að veiðimenn geri sér vonir um að salan aukist við þá breytingu.
Á síðasta ári voru veiddar 45 hrefnur, þar af 39 vegna vísindaverkefnis Hafrannsóknastofnunar og 6 í atvinnuskyni. Ekki er gert ráð fyrir vísindaveiðum í ár.
Þegar Stefán var spurður hvort búist væri við hörðum viðbrögðum annarra þjóða vegna kvótans nú, sagði hann að sumar þjóðir, sem jafnvel veiðar sjálfar hvali, hefðu lýst andstöðu við slíkar veiðar en aðrar þjóðir hefðu lýst yfir stuðningi við sjálfbærar veiðar.
Stefán sagðist aðspurður ekki reikna með að hrefnuveiðarnar hefðu nein áhrif á afstöðu annarra þjóða til framboðs Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna