Hægt væri að minnka lyfjakostnað þjóðarinnar um tugi og jafnvel hundruð milljóna króna á ári ef læknar ávísuðu lyfjum samkvæmt ráðleggingum Tryggingastofnunar ríkisins og Landlæknis.
Þessir aðilar vinna nú að gerð lyfjalista þar sem talin eru upp þau lyf sem ráðlögð eru sem fyrsta val í meðferð á algengustu sjúkdómum og er þá tekið tillit til virkni, aukaverkana og verðs. Þegar hafa verið gerðir listar fyrir tvo lyfjaflokka en unnið er að þeim þriðja. Verkefnið er umfangsmikið en áætlað er að ljúka gerð lyfjalista fyrir stærstu lyfjaflokkana á næstu mánuðum.
Listarnir eru ætlaðir læknum og þá má m.a. nálgast á vef Tryggingastofnunar. Markmið með lyfjalistanum er að veita „önnum köfnum læknum stuðning við val á lyfjum ásamt því að stuðla að hagkvæmri notkun lyfja,“ segir á vefnum.
„Færu læknar eftir lyfjalistum væri hægt að lækka lyfjakostnað um tugi og jafnvel hundruð milljóna króna á ári, án þess að það hefði áhrif á meðferð sjúklinga,“ segir Guðrún I. Gylfadóttir, deildarstjóri lyfjadeildar TR. „Notkun á lyfjum er oft allt önnur hér á landi en t.d. í nágrannalöndunum Danmörku og Svíþjóð. Þar er mun oftar verið að nota ódýrari lyf. Mér finnst læknar sýna þessu máli áhuga og því ekki hægt að skella skuldinni alfarið á þá, en lítil áhersla hefur verið lögð á umræðu um þetta undanfarin ár.“