Talsmaður Grænfriðunga á Norðurlöndum segir að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að heimila áframhaldandi atvinnuveiðar á hrefnu sé bæði sorgleg og kjánaleg og engin raunhæf ástæða sé fyrir þessum veiðum.
„Þessi ákvörðun er algerlega óskiljanleg. Það er nánast enginn markaður fyrir hvalkjöt á Íslandi, enginn möguleiki á útflutningi og veiðarnar eru aðeins skaðlegar fyrir Íslendinga. Hvalveiðar tilheyra fortíðinni," sagði Frode Pleym, talsmaður Grænfriðunga í Noregi.
Spurður hvort Grænfriðungar muni grípa til einhverra aðgerða vegna hrefnuveiða Íslendinga sagði hann að samtökin veittu ekki upplýsingar um slíkt fyrirfram. Hins vegar hefðu Grænfriðungar undanfarin 5 ár reynt að sannfæra íslenska sjávarútvegsráðherra um að það væri mun fýsilegra fyrir Íslendinga að veiða ekki hvali. Þá hafi Grænfriðungar hvatt stuðningsmenn sína til að fara til Íslands, svo framarlega sem þar séu ekki veiddir hvalir, og hafi 115 þúsund manns heitið því að heimsækja Ísland verði veiðum hætt. Þessar aðgerðir hafi hins vegar reynst árangurslausar og samtökin muni nú endurmeta stöðuna í því ljósi.
Pleym vísaði einnig til þess, að Ísland sæktist nú eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og hvalveiðar í trássi við alþjóðlegt veiðibann, muni ekki styrkja stöðu Íslands í þeirri baráttu.