Samþykkt var með 9 samhljóða atkvæðum á fundi bæjarstjórnar Akraness í kvöld, að fela bæjarstjóra, bæjarritara og sviðsstjóra fjölskyldusviðs að taka upp viðræður við félags- og tryggingamálaráðuneyti um móttöku og þjónustu við flóttafólk, allt að 30 manns.
Á fundinum var einnig kosið á ný í nefndir og ráð en nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks var myndaður í bæjarstjórinni í síðustu viku þegar Karen Jónsdóttir, sem var fulltrúi frjálslyndra og óháðra, gekk til liðs við sjálfstæðismenn.
Ástæðan sem Karen gaf upp fyrir þessum flokkskiptum var andstaða Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varabæjarfulltrúa og varaformanns Frjálslynda flokksins, við að bærinn taki við þrjátíu landflótta Palestínumönnum. Magnús var formaður félagsmálaráðs Akraness en í hans stað var Tryggvi Bjarnason, lögfræðingur, kjörinn formaður á fundinum í kvöld.
Fundargerð bæjarstjórnarfundarins í kvöld