Vikan frá 12. maí til 19.maí var nokkuð erilsöm hjá lögreglunni á Hvolsvelli og voru alls 142 mál skráð þessa vikuna. Eins og svo oft áður var mest hjá lögreglunni að gera í umferðarmálum og ber þar helst að nefna að alls voru fimmtíu ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur. Þetta kemur fram á fréttavef lögreglunnar.
Þrettán ökumenn voru stöðvaðir þar sem þeir óku bifreiðum sínum hraðar en 120 km/klst. Á sunnudagskvöld var svo ökumaður stöðvaður á Suðurlandsvegi skammt vestan við Hvolsvöll á 126 km/klst hraða og er sá ökumaður jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Tvö umferðaróhöpp urðu í umdæminu í vikunni og voru þau bæði minniháttar en í öðru þeirra var lítilli vörubifreið með krana ekið undir skyggni við N1 bensínstöðina á Hvolsvelli. Hafði kraninn var uppi þegar vörubifreiðinni var ekið undir skyggnið með þeim afleiðingum að kraninn skemmdist og þá skemmdist skyggnið eitthvað líka. Lak glussi frá krananum á planið við bensíndælur og voru menn frá Brunavörnum Rangárvallasýslu fengnir til að hreinsa planið.Átta sinnum var tilkynnt um laus dýr við vegi í sýslunni en mjög mikið er um lausagöngu dýra við vegi í umdæminu og er þá helst um að ræða hesta og kindur en þó var einnig tilkynnt um lausa nautgripi og þá var einnig tilkynnt um lausa hænu við Suðurlandsveg.