Um átta tonn af sprengiefni voru flutt af svæði Kárahnjúkavirkjunar án leyfis á föstudag. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum flutti fyrrverandi starfsmaður virkjunarinnar efnið af svæðinu en þegar í ljós kom að hann hafði ekki heimild lögreglu til þess að flytja efnið sneri hann við og skilaði því.
Óskar Bjartmars, yfirlögregluþjónn á Seyðisfirði, segir að maðurinn hafi talið sig vera að fá efnin að láni, og bætir við að í verktakabransanum tíðkist það að menn fái lánað hjá hvor öðrum, en hann hafi vantað leyfi lögreglu.
Óskar segir að brot mannsins hafi verið að ætlað að flytja sprengiefni án þess að hafa heimild lögreglu, og bætir við að það brot sé í athugun lögreglu.