Ólafur Þ. Stephensen hefur sleppt ritstjórnartaumunum af 24 stundum og Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir tekið við þeim.
„Ég er stoltastur af að hafa komið lestri blaðsins úr 36% í yfir 50%. Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að meira en helmingur þjóðarinnar telur blaðið nógu gott til að gefa því gaum á hverjum degi,“ segir Ólafur sem er næsti ritstjóri Morgunblaðsins og ritstjóri Árvakurs.
Gunnhildur segir markmiðið að halda áfram að saxa á æ minnkandi forskot Fréttablaðsins með öflugri blaðamennsku. Hún hefur ráðið þriðja fréttastjórann og hóf hann störf í gær. „Magnús Halldórsson kemur af Fréttablaðinu og starfar við hlið þeirra Bjargar Evu Erlendsdóttur og Þrastar Emilssonar.“
Gunnhildur segir sóknarfærin meðal annars felast í öflugra helgarblaði. „Við ætlum að efla laugardagsblaðið þannig að það verði blaðið sem kemur í stað bókar á náttborði lesenda. Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, fyrrum ritstjóri Nýs Lífs, hefur verið ráðin til að efla það með okkur,“ segir hún og boðar breytt og enn betra blað frá 3. júní.