Hætt við Bitruvirkjun

Af vefnum Hengill.nu
Af vefnum Hengill.nu

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti einróma á fundi sínum í morgun að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og að fresta öllum  frekari framkvæmdum á svæðinu.

Í áliti Skipulagsstofnunar vegna framkvæmda við Bitruvirkjun kemur fram að bygging virkjunarinnar sé ekki viðunandi vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Segir í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis. 

„Það er stefna stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að gæta varúðar í hvívetna við framkvæmdir á vegum fyrirtækisins. Að fengnu áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar samþykkir stjórn OR að hætta undirbúningi Bitruvirkjunar og að fresta öllum  frekari framkvæmdum á svæðinu.

Ákvörðun um framhald verkefnisins verði tekin að höfðu samráði við sveitastjórnir eigenda Orkuveitu Reykjavíkur og sveitarfélagsins Ölfuss, sem hefur skipulag svæðisins með höndum," að því er segir í tillögu sem samþykkt var á stjórnarfundi OR í morgun.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundinum að halda áfram undirbúningi virkjunar í Hverahlíð í samræmi við álit Skipulagsstofnunar og í samkomulagi við sveitarfélagið Ölfus.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmd við Hverahlíð kemur fram að stofnunin telur að setja þurfi skilyrði fyrir framkvæmdinni er lúta að áhrifum á jarðhitaauðlindina, áhrifum á grunnvatn og áhrifum á loftgæði.

Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð virkjun við Hverahlíð komi til með að hafa talsverð neikvæð sjónræn áhrif sem muni breyta ásýnd svæðis við Suðurlandsveg og hafa í för með sér talsvert rask á mosavaxinni hraunbreiðu. Svæðið er hins vegar að mörgu leyti einsleitt með tilliti til landslagsásýndar og nálægð við fjölfarinn þjóðveg og nágrenni áhrifasvæðis Hellisheiðarvirkjunar gerir það m.a. að verkum að upplifun svæðisins sem lítt snortins kyrrláts svæðis er ekki fyrir hendi, að því er segir í áliti Skipulagsstofnunar.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert