Ríkið gæti þurft að bregðast við þróun á fasteignamarkaði

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði á fundi Samtaka iðnaðarins  í dag, að ef ástandið á fasteignamarkaði verði mjög óvenjulegt sé viðbúið að ríkið þurfi að bregðast við með sérstökum aðgerðum.

Ef markaðurinn teljist hins vegar innan eðlilegra marka sé betra að láta hann jafna sig án sérstakra aðgerða af hálfu hins opinbera umfram þær aðgerðir, sem þegar hafa verið ákveðnar eða boðaðar samkvæmt stjórnarsáttmálanum eða öðrum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar. Þar sé um að ræða afnám stimpilgjalda á fyrstu íbúðakaup og aukna fjármuni í sérstök lán vegna leiguíbúða.

Árni sagði að veltan á íbúðamarkaðinum hafi dregist verulega saman upp á síðkastið. Þá hafi íbúðaverð lækkað um ein 4% frá áramótum. Þetta sé í samræmi við fyrri reynslu af hegðum íbúðamarkaðarins á samdráttartímum, þ.e. að samdrátturinn hafi fyrst áhrif á veltuna en smám saman gefi verðið einnig eftir.

Þá bendi útreikningar til þess,  að miðað við forsendur um íbúaþróun hafi íbúðabyggingar á síðasta ári hafi farið fram úr langtímaþörf landsmanna fyrir íbúðir. Miðað við að nú taki við rólegra tímabil, þar sem markaðurinn vinni  úr offramboði, megi gera ráð fyrir einhverri verðlækkun á fasteignamarkaði. Til marks um stöðuna á fasteignamarkaði hafi einnig dregið úr útgefnum byggingaleyfum á allra síðustu mánuðum.

Ræða fjármálaráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert