Betur fór en á horfðist þegar mjög harður árekstur varð á mótum Glerárgötu og Gránufélagsgötu á Akureyri um kvöldmatarleytið í gærkvöldi – á horninu neðan við Sjallann.
Bíll sem ekið var út úr Gránufélagsgötunni (frá Sjallanum) og út í Glerárgötu ók inn í hlið annars sem ekið var á mikilli ferð í suðurátt.
Lögreglan á Akureyri vildi í gærkvöldi ekki staðfesta að tveir bílar hefðu verið í kappakstri suður Glerárgötu, eins og sjónarvottar héldu fram, en sagði þó ljóst að sá sem ók suður götuna og lenti í árekstrinum hefði verið á mikilli ferð. Sá var á hægri akrein en annar, á vinstri akreininni, var kominn aðeins lengra að sögn sjónarvotta.
Ökumenn beggja bíla og farþegi í þeim sem ekið var suður Glerárgötu voru allir fluttir á slysadeild í sjúkrabíl en enginn þeirra slasaðist alvarlega. Þykir það mikil mildi.