Grænmeti þvegið úr íslensku vatni og selt sem íslenskt

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag að mikil brenglun ætti sér stað í merkingum á íslenskum markaði. Sagðist hann hafa fengið það staðfest hjá matvælaeftirlitinu að grænmeti, sem flutt væri frá Ameríku, Asíu, Evrópu eða Afríku væri skolað upp úr íslensku vatni og selt sem íslensk framleiðsla.

Sagði Árni, að skákað væri í skjóli einhverra óskýrra reglna um umpökkununaraðferðir. Hann sagði, að íslenskir framleiðendur þyrðu ekki að kvarta yfir þessu því allt benti til þess að stórir birgjar, sem flytja inn grænmeti en skipta einniig við íslenska framleiðendur, myndu refsa þeim og þeir kynnu að hrökklast af markaði.

Spurði Árni Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hvort ekki væri tímabært að grípa inn í og tryggja að réttar merkingar væru á íslensku grænmeti þannig að enginn velktist í vafa um hvað væri íslensk vara og hvað ekki. Björgvin sagði, að þetta myndi flokkast undir gróft lögbrot og vörusvik ef rétt reyndist. Ef fólk byggi yfir vísbendingum um slík brot væri ástæða til að hvetja hina sömu til að koma þeim til Neytendastofu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert