Grásleppuvertíðin í Stykkishólmi hafin

Hrannar Pétursson hafnarvörður á spjalli við grásleppukarlana Björn Ásgeirsson, Jóhann …
Hrannar Pétursson hafnarvörður á spjalli við grásleppukarlana Björn Ásgeirsson, Jóhann Kúld Björnsson og Þröst Auðunsson en þeir voru meðal fyrstu manna til að leggja netin í gærmorgun.

Grásleppuvertíðin í Stykkishólmi er hafin. Bátar sigldu út sléttan Breiðafjörðinn í gærmorgun hver í kapp við annan og klukkan 8 máttu fyrstu netin fara í sjó.

Grásleppuvertíðin hefst mjög seint í innarlegum Breiðafirði, þar sem samkomulag hefur verið á milli hagsmunaaðila um friðun á meðan æðarfuglinn er að setjast upp í eyjarnar til að verpa.

Stykkishólmur hefur verið einn af þeim stöðum sem tekið hafa á móti hvað mestum afla í gegnum tíðina.

Alls hafa verið gefin út leyfi til 17 báta í Hólminum til grásleppuveiða. Flestir grásleppukarlar voru tilbúnir í slaginn í gær og biðu eftir því að flautað væri til leiks. Í ár stunda mun fleiri karlar veiðar en í fyrra. Þá voru gerðir héðan út um 10 bátar. Aukinn áhugi nú stafar af hækkandi verði á grásleppuhrognum.

Karlarnir á bryggjunni voru bjartsýnir í byrjun vertíðar. Gengislækkun síðustu mánuði er að skila sér til þeirra í hærra verði. Flestir þeirra eru komir í föst viðskipti hjá kaupendum.

Þegar þeir voru spurðir hvort þeim reyndist erfitt að finna stæði fyrir netin þegar bátum fjölgaði svo, sögðu þeir að það væri ekkert að óttast. „Breiðafjörðurinn er stór, eyjarnar margar og grynningar, svo að víða er hægt að vera. En vissulega eru sumir staðir betri en aðrir og þangað förum við strax og reynum að vera fyrstir,“ sögðu grásleppukarlanir á bryggjunni er þeir voru að spjalla saman og spá í spilin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert