Hegningarlagabrotum fækkar milli ára

mbl.is/Július

Hegningarlagabrotum fækkaði í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en umferðalagabrotum fjölgaði.  Rekja má fjölgunina að miklu leyti til hraðakstursmyndavéla. Fíkniefnabrot voru 22% færri en í apríl í fyrra. Þetta kemur fram í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra fyrir aprílmánuð.

Líkamsárásir að næturlagi en hraðakstur um miðjan dag

Samkvæmt málaskrá lögreglunnar voru flestar líkamsárásir framdar að næturlagi í apríl, eða tæp 60%. Flest hraðakstursbrot voru framin að degi til, milli hádegis og sex síðdegis en eignaspjöll dreifðust hins vegar frekar jafnt yfir sólarhringinn.

Þrjár líkamsmeiðingar á dag

Skráð voru 4363 hraðakstursbrot sem er talsverð fjölgun frá því í apríl síðustu tvö ár. Þjófnaðarbrot og eignaspjöll voru einnig fleiri en síðustu tvö ár. Þá voru 169 innbrot tilkynnt lögreglu sem jafngildir tæplega 6 innbrotum á dag og 97 líkamsmeiðingar sem jafngildir um þremur slíkum brotum á dag. Áfengislagabrot voru 44% færri í ár en í fyrra og það sama átti við um akstur gegn rauðu ljósi.

Skýrslan í heild 

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert