„Það er engin afsökun fyrir þjáningum Palestínumanna sem hafast við í Al Waleed-flóttamannabúðunum. Þeir flúðu vegna morða á ættingjum og morðhótana en horfast nú í augu við dauðann í Al Waleed.“ Þannig mæltist Michelle Alfaro, starfsmanni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) eftir heimsókn í búðirnar fyrr í þessum mánuði. Í haust munu um 30 Palestínumenn sem nú hafast við í Al Waleed verða fluttir til Íslands og er ætlunin að fólkið setjist að á Akranesi.
Móttaka flóttamannanna er liður í verkefninu „Konur í hættu“ og mun hópurinn væntanlega samanstanda af konum og börnum þeirra.
Palestínumennirnir sem hafast við í Al Waleed flúðu frá heimilum sínum í Bagdad eftir að ofsóknir gegn þeim hófust fyrir um tveimur árum. Sumir þeirra flúðu Palestínu um það leyti sem Ísraelsríki var stofnað en aðrir fæddust í Írak og hafa búið þar alla tíð. Þeir komust að Al Waleed, skammt frá landamærum Íraks og Sýrlands en þar hafa þeir verið strand síðan. Sýrlendingar vilja ekki hleypa þeim inn í landið og hafa bent á að þeir hafi nú þegar tekið á móti mörg hundruð þúsund flóttamönnum frá Írak til viðbótar við þann mikla fjölda sem flúði til Sýrlands um miðja síðustu öld. Palestínumennirnir í Al Waleed eru í þeirri stöðu að þeir geta sig hvergi hreyft; þeir geta ekki snúið til baka og ekkert nágrannalanda Íraks vill taka við þeim.
Upp á síðkastið hefur nokkur fjöldi úr Al Waleed-búðunum fengið hæli á Vesturlöndum. Flóttamannastofnun SÞ segir viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þessum vanda þó hafa verið í lágmarki, þrátt fyrir ítrekaðar óskir um aðstoð.
Al Waleed-búðirnar eru á afar ótryggu svæði og hefur SÞ ekki fengið leyfi til að halda uppi stöðugri starfsemi í búðunum. Frá því búðirnar voru opnaðar fyrir um tveimur árum hafa a.m.k. þrír látið lífið úr meinum sem auðvelt hefði verið að lækna, þ.ám. sex mánaða gamalt barn, að því er segir á vef Flóttamannastofnunarinnar.
Aðstæður í búðunum munu væntanlega versna enn í sumar þegar hitastigið fer yfir 50°C og sandstormar eru tíðir.
Um miðjan júní er ætlunin að lítil sendinefnd frá Rauða krossi Íslands fari í búðirnar til að taka viðtöl við konur sem þar dvelja og velja þær sem munu koma hingað til lands. Ekki er talið ólíklegt að um verði að ræða 10 konur og um 20 börn en það á eftir að koma endanlega í ljós.