Sátt um REI í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur.

Á fundi stjórnar Orkuveitunnar í kvöld um málefni REI náðist góð samstaða og sátt um fyrirtækið, að því er segir í fréttatilkynningu. Á fundinum var einróma samþykkt neðangreind ályktunartillaga. Með samþykkt tillögunnar vonast stjórn Orkuveitu Reykjavíkur til þess að málefni REI séu komin í farsælan farveg.

„Meginhlutverk Orkuveitu Reykjavíkur er að tryggja Reykvíkingum og öðrum notendum á heimamarkaði góða þjónustu á sem bestu verði.

Dótturfélagið REI var stofnað til þess að sinna fjárfestingar-, þróunar- og ráðgjafarverkefnum erlendis.  Með því að finna útrásinni farveg í  REI, skapast möguleiki á að nýta þau verðmæti sem felast í orðspori Orkuveitunnar, þekkingu og reynslu starfsmanna um leið og áhætta OR af útrásarverkefnum er takmörkuð.

REI hefur fjölmörg jarðhitaverkefni til skoðunar í ýmsum löndum og á fjölþættum sviðum. Til að undirbúa framtíðarstefnumótun REI, beinir stjórn OR því til stjórnar REI að unnin verði úttekt á verkefnum REI, sem nái til

  • áfallins kostnaðar
  • eðlis og umfangs
  • fjárfestingarþarfar
  • mögulegra trygginga og annarra leiða til að lágmarka áhættu einstakra verkefna.

Einnig verði gerð grein fyrir mögulegri aðkomu fjárfesta og lánastofnana að einstökum verkefnum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka