Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar telja ljóst, að hlutur sem fannst í húsgrunni við Furugrund í Kópavogi sé sprengja frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Verið er að sækja búnað til að gera sprengjuna óvirka. Stórt svæði hefur verið girt af og stendur til að stækka öryggissvæðið enn frekar.
Sprengjan kom í ljós þegar verið var að grafa grunn fyrir íþróttahús og félagsaðstöðu HK á svæðinu. Var svæðinu lokað í kjölfarið og hluti Snælandsskóla var rýmdur.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu er sprengjan um 60 cm að lengd og um 20 cm að breidd.