Lögregla hefur lokað Furugrund í Kópavogi í aðra áttina og afgirt byggingasvæði þar sem byggja á íþróttahús og félagaaðstöðu HK eftir að túbulaga stykki sem virðist vera sprengja, fannst í grunninum. Þá hefur hluti Snælandsskóla verið rýmdur.
Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, er á staðnum en segir frekari upplýsingar ekki liggja fyrir. Fimm lögreglumenn standi vörð um byggingasvæðið en auk þess hafi tveir sérfræðingar Landhelgisgæslunar farið inn á það fyrir stundu. Þá segir hann forvitin börn og aðra íbúa hafa safnast að til að kanna hvað sé á seyði.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu er hluturinn sem um ræðir um 60 cm að lengd og um 20 cm að breidd.