Börn og barnavernd hafa ekki verið í forgangi í íslensku þjóðfélagi að mati Anni Haugen, sem er að koma af stað 3ja anna diplómanámi í barnavernd við félagsráðgjafaskor Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Anni hefur unnið við barnavernd á Íslandi árum saman, en þeir sem koma beint að málsmeðferð í barnaverndarmálum á Íslandi eru aðeins um 100 manns.
Anni segir barnaverndarmál vera að þyngjast. Hópur foreldra, sem stríðir við geðræn vandamál, neyslu, fátækt og er illa staddir í þjóðfélaginu, hefur þyngst og vandamál barnanna eru þar af leiðandi líka stærri og erfiðari.
„Við erum nokkurn veginn byrjuð að þora að sjá kynferðisofbeldi og athuga hvað hægt er að gera í því. En við tölum miklu minna um vanrækslu. Og börn sem eru vanrækt eru í fyrsta lagi fleiri en þau sem verða fyrir ofbeldi, og vanræksla getur hreinlega verið banvæn,“ segir Anni. Þetta sjónarhorn er dregið fram í dagsljósið á ráðstefnu sem nú stendur yfir í Reykjavík.
„Foreldrar fá frekar tækifæri ef þau gera ekkert, en ef þau beita ofbeldi. En vanræksla getur haft miklar afleiðingar. Ofbeldi, slys, fíkn, neysla, þunglyndi og ýmis geðræn vandamál liggja í leyni þar sem vanrækslan er látin eiga sig. „Barnalæknir lýsti því svo að þegar fimm ára barn nær að hlaupa frá foreldrum sínum í veg fyrir bíl á Laugavegi er það slys. En þegar fimm ára barn er eitt niðri í bæ og verður fyrir bíl er það vanræksla.
Anni segir vanta rannsóknir og yfirsýn yfir ýmsa þætti barnaverndar, svo sem umfang vanrækslu og hvernig úrræði reynast. Vanræksla á sér stað bæði inn á heimili barna og utan og hún getur legið í þjóðfélagsgerðinni. Þegar vinnutími er langur og skortur á fjármagni og þekkingu þeirra sem að málum koma skipti máli. Kerfið hafi líka vanrækt sínar skyldur, eins og Breiðavíkurmálið og önnur því skyld séu glögg dæmi um.