Varað við tölvupósti

mbl.is/Jim Smart

Fjármunabrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varar við tölvupósti er virðist við fyrstu sýn stafa frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Sendandinn segist stýra verkefni innan Evrópusambandsins vegna skyndilegra fuglaflensutilfella innan vissra hluta Evrópusambandsins.

Bandarískir samstarfsaðilar, sem fjármagni verkefnið, hafi hins vegar greitt honum í formi bandarískra tékka, bankamillifærslna og peningasendinga. Hins vegar hafi hann ekki getað, vegna lítils fyrirvara og mikilla ferðalaga, stofnað bankareikning í Bandaríkjunum til að innleysa þessa fjármuni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Af þeim sökum bjóði hann viðtakanda tölvupóstsins að gerast milligöngumaður um móttöku og innlausn þessara fjármuna. Fyrir vikið geti viðkomandi aðili fengið í sinn hlut allt að 5.000 dollara þóknun fyrir tveggja til þriggja vikna vinnu. Til þess að svo geti orðið þurfi viðtakandi tölvupóstsins að gefa upp nafn, heimilisfang, stöðuheiti og símanúmer.

„Hér er augljóslega um svokallaðan Nígeríupóst að ræða sem á sér ýmis birtingarform. Hér er um að ræða þekkta leið þar sem svikarinn beitir nöfnum þekktra alþjóðlegra stofnana. Þess eru jafnvel dæmi að misnotuð séu nöfn löggæslustofnana.

Að marggefnu tilefni er varað við því að svara slíkum sendingum. Þeir sem gera slíkt eiga á hættu að verða fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni. Þar að auki er hugsanlegt að þátttaka í flutningi fjármagns, eins og oft er lýst í slíkum gylliboðum, gæti út af fyrir sig talist vera þátttaka í peningaþvætti. Slíkt er refsivert, jafnvel þótt um gáleysi sé að ræða af hálfu þess sem tekur þátt í slíku," samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.
 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert