Ættum við öll að flytja til Íslands? spyr Paul Vallely, blaðamaður breska blaðsins Independent, í grein í dag þar sem hann reynir að varpa ljósi á það hvers vegna hin skrýtna nágrannaþjóð Breta í norðvestri er jafn friðsöm og hamingjusöm og raun ber vitni.
Vallely rökstyður bæði neikvætt og jákvætt svar. Já-megin er, að íslenska þjóðin er friðsöm, hamingjusöm og á Íslandi eru lífskjör með því besta sem þekkist, það er ekki eins kalt á Íslandi og ætla mætti og velferðarkerfið þar sé afar þróað og lítið sé um að svindlað sé á kerfinu.
Nei-megin er hins vegar, að það er ekki nóg pláss á Íslandi til að rúma alla. Þar búi aðeins um 300 þúsund manns, álíka og í Coventry. Þar sé stærsta eyðimörk í Evrópu. Lokasvarið í nei-dálnum er, að menningarlíf hljóti að bjóða upp á meira en Björk og 13. aldar Íslendingasögur.
Meginskýring Vellelys á því hve Íslendingar eru friðsamir er sú, að áhrif kvenna séu mikil á Íslandi og hafi verið allt frá landnámshöld enda eigi íslenskar konur ættir að rekja til keltneskra kvenna. Þá rekur hann ýmsar ástæður fyrir því hve Íslendingingar eru hamingjusamir, þar á meðal eina frekar frumlega: að þeir veiði hvali.
En eru Íslendingar ekki vondir við hvali? spyr blaðamaðurinn, og svarar: Enginn er jú fullkominn. Íslendingar hættu hefðbundnum hvalveiðum 1989 í samræmi við alþjóðlegt hvalveiðibann en hófu síðan vísindahvalveiðar að sögn til að rannsaka áhrif hvala á fiskistofna og fyrir tveimur árum hófu þeir atvinnuveiðar að nýju. „Kannski er það ástæðan fyrir því hvað þeir eru hamingjusamir" segir Vellely.