Eftir hálfa öld er vonast til þess að Mýrdalssandur verði að mestu gróinn. Nú er hann enn víða svartur sem nóttin jafnvel þótt Vegagerðin og Landgræðslan hafi unnið að stöðvun sandfoks og uppgræðslu frá því 1987. Hægt og bítandi tekst þó að breyta auðn í gróin svæði og þykir melgresið þola ágang sandsins betur en nokkur önnur planta.
Mýrdalssandur þekur um 35 þúsund hektara landsvæði og hefur þegar tekist að græða upp um fimmtán til átján hundruð hektara lands að hluta. Eftir tíu ár er stefnt að því að gróna svæðið verði alls orðið tvö þúsund hektarar.
Árni Eiríksson, sáðmaður hjá Landgræðslunni, vann hörðum höndum við sáningu á Mýrdalssandi nú í vikunni þegar Jónas Erlendsson, frétta- og myndatökumaður, var þar á ferð.
Nánar er fjallað um uppgræðsluna fyrir austan og rætt við Svein Runólfsson landgræðslustjóra í Morgunblaðinu í dag.