Betra en fara í felur

„Það er auðvitað óvenjulegt að annar stjórnarflokkurinn skuli lýsa sig andvígan því en að mörgu leyti er það hreinlegra en fara í felur með slíka afstöðu,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi í gær þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, bar upp spurningar um það sem hann kallaði einstæða uppákomu, þ.e. yfirlýsingu ráðherra Samfylkingarinnar um andstöðu við þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að leyfa hrefnuveiðar.

„Nú er auðvitað ljóst að þessi gjörningur Samfylkingarinnar er fremur aumlegur kattarþvottur því að sjálfsögðu bera stjórnarflokkarnir báðir, og meirihluti þeirra, sameiginlega pólitíska ábyrgð á verkum ríkisstjórnarinnar – á tilveru hennar – á virðingu jafnt sem vömmum,“ sagði Steingrímur og velti því upp hvaða þingstyrks þessi ákvörðun nyti sem og hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra gæti mögulega verið á móti málinu heima fyrir en varið það erlendis.

Geir sagði hins vegar alltaf hafa legið fyrir að stjórnarflokkarnir væru ekki á sömu línu hvað þetta varðar og að ekki hefði verið tekið á málinu í stjórnarsáttmálanum. Sjávarútvegsráðherra fylgdi stefnu sem var mörkuð í fyrri ríkisstjórn og byggðist m.a. á þingsályktunartillögu frá árinu 1999. „Á bak við þessa ákvörðun liggur auðvitað sú stefna að nýta þessar sjávarauðlindir með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Utanríkisráðherra hefur sagt að hún muni útskýra þetta sjónarmið á alþjóðavettvangi út frá þessum sjónarmiðum,“ sagði Geir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert