Dæmdur í 16 ára fangelsi

Lögreglubíll utan við húsið við Hringbraut.
Lögreglubíll utan við húsið við Hringbraut. mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann á fertugsaldri, Þórarin Gíslason, í 16 ára fangelsi fyrir að verða karlmanni á fimmtugsaldri að bana í fjölbýlishúsi við Hringbraut í október á síðsta ári. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða aðstandendum mannsins, sem hann banaði 625 þúsund krónur í bætur og rúma 1,1 milljón króna í sakarkostnað. 

Þórarinn var fundinn sekur um að hafa slegið hinn manninn a.m.k. þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitæki en talið var sannað, að þau höfuðhögg hefðu leitt manninn til dauða að kvöldi sama dags. 

Samkvæmt vitnisburði réttarmeinafræðings hefði hvert og eitt högganna getað valdið dauða. Segir í niðurstöðu dómsins, að Þórarni hafi ekki gerað dulist að höfuðhöggin myndu leiða til dauða. Ekki hafi verið leitt í ljós hvað Þórarni gekk til en skýringa á verknaðinum sé helst að leita í annarlegu ástandi hans á verknaðarstundu. Hann eigi sér engar málsbætur.

Þórarinn hringdi sjálfur í lögreglu 7. október og sagði að vinur hans og nágranni lægi rænulaus í rúmi sínu. Sagðist Þórarinn hafa farið inn í opna íbúðina og komið að nágrannanum þar. Lögregla fann manninn í rúminu og var hann með mikla áverka á andliti. Þá mátti sjá duft úr slökkvitæki á vanga hans og í rúminu og blóðslettur á veggnum ofan við höfðagaflinn.

Maðurinn var fluttur á slysadeild en lést þar síðar um kvöldið af sárum sínum.  Þórarinn var hins vegar handtekinn en hann var m.a. með nýlegt hrufl á fingri og á höndum hans var duft úr slökkvitæki. Við húsleit á heimili hans fannst úlpa með blóðblettum á, duft úr slökkvitæki og blóðkám á vaski, rafmagnsrofa og útidyrahurð.

Þórarinn neitaði sök en í niðurstöðu dómsins segir, að hann og maðurinn, sem lést, hafi komið inn í húsið um hádegisbil. Enginn hafi komið í húsakynnin eftir það fyrr en lögreglan um tveimur tímum síðar en þetta megi ráða af upptökum eftirlitsmyndavélar í húsinu. Rannsókn hafi leitt í ljós að engin ný eða nýleg skóför voru á svölum íbúðar hins látna. Samkvæmt því sé útilokað að einhver hafi komið inn í íbúð mannsins frá svölunum og ráðið honum bana. Ljóst sé að Þórarinn sé sá eini, sem komi til greina sem banamaður hins mannsins.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert