Ingibjörg Sólrún í Eistlandi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Frikki

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, í opinberri heimsókn sinni þangað.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, að þau Ingibjörg Sólrún og Paet hafi rætt ýmis  tvíhliða samskipti ríkjanna, samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins, svæðisbundna samvinnu og samstarf ríkjanna á grundvelli EES-samningsins. Þá þakkaði Ingibjörg Sólrún einarðan stuðning Eistlands við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, en Eistland hefur tekið beinan þátt í kosningabaráttu Íslands síðustu misseri.

Ingibjörg Sólrún flutti opnunarræðu, sem fulltrúi Norðurlandanna, á ráðstefnu í Tallinn sem helguð var auknum viðskiptatækifærum á Balkanskaga og samstarfi og viðskiptum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja við það svæði.  Hún heimsótti einnig eistneska þjóðþingið og átti fund með þingmönnum í vináttunefnd Eistlands og Íslands. Þá var hún gestur í morgunþætti eistneska ríkissjónvarpsins og svaraði fyrirspurnum fjölmiðla.

Loks kynnti Ingibjörg Sólrún sér starfsemi varnarmiðstöðvar um netöryggi sem verið er að byggja upp í Tallinn að frumkvæði Eistlands innan vébanda Atlantshafsbandalagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert