Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir að ummæli hans um breytingar á Íbúðalánasjóði á fundi Samtaka iðnaðarins í fyrradag feli ekki í sér að ríkið eigi að draga sig út úr almennum lánveitingum til íbúðakaupa. Rætt hefur verið um að skipta Íbúðalánasjóði upp í tvo hluta, annars vegar um félagslegt húsnæði og hins vegar í almenna hlutann, og afnema ríkisábyrðina á almennum lánum Íbúðalánasjóðs. Árni sagði á fundi SI að eðlilegt væri að almenni hlutinn yrði þá rekinn að fullu á markaðsgrundvelli. Árni segir að ummæli hans hafi tekið mið af þeim hugmyndum sem fjallað var um í stýrihópi í fyrra. Rætt var á þeim tíma um að notast yrði við sérvarin skuldabréf (e.: „covered bonds“) við fjármögnun í nýju heildsölukerfi.
Að sögn Árna felur þetta í sér að gefin yrðu út sérvarin skuldabréf sem síðan væru nýtt til þess að fjármagna íbúðakaup og bæði Íbúðalánasjóður sjálfur og bankarnir gætu notað til þess að fjármagna íbúðakaup einstaklinga. „Bankarnir hefðu líka aðgang að þessum útgáfum, sem verða hagkvæmari eftir því sem þær eru stærri. Ef þeir vildu þá gætu þeir auðvitað farið í svona útgáfu sjálfir. Þegar unnið var að þessu á sínum tíma var afstaða bankanna misjöfn. Sumir þeirra voru tilbúnir að fara í þetta en aðrir vildu það ekki. Ég ímynda mér að það hafi breyst núna,“ segir Árni. Þar sem ríkisábyrgð yrði afnumin jafnaðist samkeppnisstaðan „og með því að bankarnir gætu líka notfært sér þessar útgáfur, þá væri verið að auka líkurnar á að það fengjust hagstæð kjör fyrir alla. Síðan gætu bankarnir og Íbúðalánasjóður keppt um þá þjónustu sem veitt er. Þetta voru þær hugmyndir sem þá voru í gangi. Þetta er mjög þróað og þekkt kerfi sem virðist gefast vel í því umhverfi sem núna er á fjármálamörkuðum.“